Ég hlakka alltaf til að heimsækja borgina
Inga Geirsdóttir hefur alla tíð haft áhuga á ferðalögum og hreyfingu, en það var ekki fyrr en hún og eiginmaður hennar, Snorri Guðmundsson, fluttu erlendis árið 2005 sem hún smitaðist af göngubakteríunni.
Hjónin fluttu í lítinn bæ nálægt Edinborg í Skotlandi og urðu strax hugfangin af landinu. Þau fóru fljótlega að skipuleggja gönguferðir um náttúru Skotlands fyrir vini og ættingja sem þróuðust með árunum, en í dag eiga þau ferðaþjónustufyrirtæki sem þau reka ásamt dóttur sinni, Margréti.
Á síðustu tæpum tveimur áratugum hefur Inga ferðast víðsvegar um heiminn og gengið á ótrúlegum slóðum, allt frá því að sigla frá Singapúr til Taílands yfir í krefjandi gönguferðir um eldfjallalandslag á Nýja Sjálandi.
Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?
„Mín reynsla er að flestir hafa gaman að því að ferðast og ég er þar engin undanteknin. Að upplifa eitthvað nýtt, koma á nýjar slóðir og kynnast nýju fólki gefur lífinu lit. Veistu, ég held að ferðalög geti bætt okkur sem manneskjur, minnkað fordóma og gert okkur víðsýnni.“
En útivist?
„Ég hef alltaf stundað fjölbreytta hreyfingu, en þegar ég bjó á Íslandi þá fór ég mikið í golf, sund og ræktina. Það var hins vegar ekki fyrr en ég flutti út árið 2005 að göngur fóru að vera mitt aðal áhugamál og má því segja að ég sé í mínu draumastarfi.
Einu sinni var fólk nú ekkert að ganga að óþörfu, enda margir í erfiðisvinnu. Nú vitum við hins vegar að útivera og göngur eru mikilvæg heilsubót. Það er manninum eðlilegt að ganga svo rétt eins og það er eðlilegt fyrir fugla að fljúga, svo ég segi bara, um að gera – tökum göngu.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég er mest hrifin af ferðum sem eru blanda af útivistar- og skoðunarferðum. En síðan hef ég mikið verið að spá í að keyra um Evrópu, eins og maður gerði í „denn“ og jafnvel vera ekki með nein plön heldur láta dagana og umhverfið ráðast að því hvar maður gistir hverju sinni og keyra í gegnum nokkur lönd. Það yrði örugglega bæði fróðlegt og gaman.“
Áttu þér uppáhaldsborg í Evrópu?
„Mín uppáhaldsborg er Edinborg. Borgin er lítil og þægileg, með fjölmörgum fallegum byggingum og sögufræðum stöðum. Ég hlakka alltaf til að heimsækja borgina þó svo ég sé ekki í nema 30 mínútna akstursfjarlægð frá Edinborg, en þangað kem ég oft. Svo er hún einstaklega sjarmerandi á aðventunni og þeir sem ég hef leitt inn í jólastemninguna þar kunna vel að meta hana.“